Um okkur

HÖFÐI Friðarsetur er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og er vettvangur fyrir þverfaglegt og alþjóðlegt samstarf með áherslu á hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði, friðarmenningu og friðarfræðslu. Í ljósi sögunnar þótti við hæfi að setrið fengi nafnið Höfði og hefði því skírskotun til þess tíma er Ísland gegndi veigamiklu hlutverki í hugum margra sem herlaust ríki í deilum tveggja stórvelda.

Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á mannréttindi og friðarstarf og því er stofnun Höfði friðarseturs liður í því að styrkja Reykjavík sem borg friðar. Stór þáttur í starfsemi setursins felst einnig í því að efla rannsóknir á friðar- og öryggismálum, og byggja þannig upp fræðigrunn sem nýtist út fyrir fræðasamfélagið, en eitt af markmiðum setursins er að koma á fót námsbraut í átaka- og friðarfræðum við Háskóla Íslands.


HÖFÐI Friðarsetur starfar innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands en stofnunin er þverfræðileg stofnun á sviði alþjóðamála sem tilheyrir Félagsvísindasviði og Hugvísindasviði við Háskóla Íslands. Önnur setur sem heyra undir stofnunina eru Rannsóknasetur um norðurslóðir og Rannsóknasetur um smáríki. Stofnunin stendur fyrir fjölda málþinga og fyrirlestra innanlands sem utan, gefur út fræðirit og kennslubækur, tekur þátt í rannsóknastörfum á sviði alþjóðamála og rekur sumarskóla undir hatti Rannsóknaseturs um smáríki ár hvert. Eitt af þeim verkefnum sem stofnunin vann nýlega að er úttekt á þjónustu við innflytjendur og greining á aðlögun þeirra að íslensku samfélagi sem unnin var í samstarfi við innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti. Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni.

Með stofnun Höfða friðarseturs gefst Alþjóðamálastofnun færi á að víkka út rannsóknarsvið stofnunarinnar og beina sjónum í auknum mæli að þeim áskorunum sem nútímasamfélög standa frammi fyrir, eins og loftslagsbreytingum, málefnum flóttamanna, auknum fjölbreytileika og aukinni þjóðernishyggju og lýðskrumi í samfélagsumræðu. Höfði friðarsetur stendur fyrir opnum fundum innan Háskóla Íslands þar sem umræða um hlutverk borga og almennra borgara í að stuðla að friði og friðarmenningu er í brennidepli. Setrið stendur einnig fyrir friðarfræðslu á sumarnámskeiði fyrir börn af ólíkum uppruna á vori hverju og þann 10/10 ár hvert stendur setrið fyrir alþjóðlegri ráðstefnu þar sem áherslan er á framlag ungs fólks til friðar.