Aðdragandinn

Þann 7. janúar 2015 skrifuðu Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands undir formlegan samstarfssamning í Höfða um undirbúning stofnunar friðarseturs en Alþjóðamálastofnun hafði skömmu áður hlotið styrk frá Reykjavíkurborg til þess að hefja undirbúningsvinnu að stofnun setursins. Í kjölfarið var Jóna Sólveig Elínardóttir ráðin sem verkefnisstjóri setursins og leiddi hún alla undirbúningsvinnu fyrir stofnun þess. Á undirbúningstímabilinu stóð Alþjóðamálastofnun fyrir viðburðum og tók þátt í verkefnum sem tengdust stofnun HÖFÐA Friðarseturs með einum eða öðrum hætti. Má þar nefna opinn fund á Fundi fólksins, þriggja daga hátíð um samfélagsmál, sem fram fór í júní 2015, undir yfirskriftinni Hvernig geta borgir stuðlað að friði? Þar var sjónum sérstaklega beint að framlagi Reykjavíkurborgar og Friðarsetursins til aukins friðar og hvernig efla mætti tengsl við virka þátttakendur í friðarstarfi, á borð við samtök, stofnanir og einstaklinga, og hvernig nýta mætti þeirra framlag og tengsl í þágu friðar.

Undirskrift 2015

Undirskriftarathöfn í Höfða árið 2015

Í ár stóð Alþjóðamálastofnun einnig fyrir opnum fundi í tengslum við hátíðina Fund fólksins en að þessu sinni undir hatti Fræði og fjölmenningarfundaraðar á vegum Háskóla Íslands sem er ætlað að stuðla að fræðslu, rannsóknum og upplýstri umræðu um fjölmenningarsamfélagið, málefni innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda. Alþjóðamálastofnun tekur þátt í verkefninu og hefur, í samstarfi við skrifstofu rektors, yfirumsjón með undirbúningi og skipulagningu þess. Þetta árið beindust sjónir að menntun og atvinnutækifærum innflytjenda og flóttafólks og hvernig nýta mætti betur starfsreynslu þeirra og þekkingu í íslensku samfélagi. 

Alþjóðamálastofnun stóð einnig fyrir fundunum Tímamót á Kúbu? og Kjarnorkusaga Hiroshima en báðir þessir fundir voru haldnir í tengslum við alþjóðlegt samstarf Reykjavíkurborgar í friðarmálum. Sá fyrrnefndi tengdist alþjóðlega skjólborgarverkefninu International Cities of Refuge Network eða ICORN. Þar fjallaði Orlando Luis Pardo Lazo, kúbanskur rithöfundur, aktívisti, blaðamaður og ritstjóri um aukin samskipti Bandaríkjanna og Kúbu en Orlando er einn þeirra sem hlotið hefur skjól hjá Reykjavíkurborg í gegnum ICORN.  Sá síðarnefndi var haldinn hér á landi í vegna samstarfs Reykjavíkurborgar við Peace Boat og Mayors for Peace en þar deildi Yumie Hirano reynslu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki með þeim sem hlýddu.