HEIMA: Alþjóðleg vernd frá sjónarhóli barnsins

Opin kynning fimmtudaginn 26. september kl. 12 – 13:15 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

UNICEF á Íslandi kynnir niðurstöður verkefnisins HEIMA: móttaka barna sem sækja um alþjóðlega vernd frá sjónarhóli barnsins.

Í ársbyrjun 2019 leiddu UNICEF á Íslandi og hönnunarstúdíóið Grallaragerðin saman hesta sína í verkefninu HEIMA þar sem móttaka barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi var skoðuð nánar með samtölum við börn, foreldra og fólkið sem sinnir móttöku þeirra.

Á kynningunni verða niðurstöður samtala við yfir 30 börn kynntar og hvernig leitast var við að finna lausnir í samstarfi við þá aðila sem sinna móttöku barna. Samtölin við börnin leiddu í ljós fjölmargar áskoranir sem þau mæta á Íslandi. Í kjölfarið voru áskoranirnar kynntar á þverfaglegri vinnustofu með starfsfólki 16 mismunandi stofnana og samtaka. Með aðferðarfræði hönnunar þróaði starfsfólkið átta nýjar lausnir við áskorunum barnanna.

Að verkefninu komu, auk UNICEF á Íslandi og Grallaragerðarinnar, félagsmálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, Útlendingastofnun, Listaháskóli Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands og Umboðsmaður barna.