Hlutverk kvenna og ungs fólks í að stuðla að friði og öryggi: Málstofa með Cynthiu Enloe

Nemendur Háskóla Íslands og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna tóku þátt í sameiginlegri málstofu með prófessor Cynthiu Enloe þriðjudaginn 11. apríl sl. Málstofan var haldin á vegum Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. 

Cynthia Enloe opnaði málstofuna með áhugaverðri umræðu um mikilvægi þess að skilgreina og gefa atburðum og athöfnum nöfn. Hugtök veita okkur tæki og tól til að sjá hluti sem við tökum annars ekki eftir og til að greina breytingar í samfélögum sem eiga sér stað yfir lengri tíma. Án þeirra komum við ekki auga á aukna hervæðingu samfélaga fyrr en átök brjótast út og án þeirra getur kerfisbundið ofbeldi birst okkur sem einangraðir glæpir. Það er auðvelt að skella skuldinni á einstaka skúrka og það krefst vinnu að setja hlutina í samhengi til þess að varpa ljósi á þá samfélagslegu þætti sem ýta undir ofbeldi og kerfisbundna mismunun. Með því er hins vegar hægt að átta sig betur á rótum vandans og öðlast yfirsýn yfir það hvar ábyrgðin liggur. 

Nemendahópurinn var afar fjölbreyttur. Auk nemenda í alþjóðasamskiptum, blaða- og fréttamennsku, opinberri stjórnsýslu og stjórnmálafræði við Háskóla Íslands sóttu nemendur Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna málstofuna. Þeir stunda nám í kynja-, friðar- og öryggisfræðum og koma víða að, m.a. frá Afganistan, Palestínu, Írak, Túnis, Sómalíu og Eþíópíu. Nemendurnir tóku þátt í þremur mismunandi umræðuhópum. Sá fyrsti var helgaður umfjöllun um ályktanir Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 og 2250 og hlutverk kvenna og ungs fólks í að stuðla að friði og öryggi, undir stjórn Tamöru Shefer, prófessors í kvenna- og kynjafræðum við Western Cape háskóla í Cape Town í Suður Afríku. Í öðrum umræðuhópi var rætt um það hvernig hægt væri að taka á þeim áskorunum sem blasa við konum á flótta en þeim umræðum var stjórnað af Ortrune Merkle, doktorsnema við UNU-MERIT við Maastricht háskóla. Hún er gestafræðimaður við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Sá þriðji var helgaður hlutverki og þátttöku kvenna í friðaruppbyggingu. Anne Flaspöler, gestafræðimaður við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, leiddi þær umræður en hún hefur haft umsjón með skipulagi kennslu í kynja-, friðar- og öryggismálum við skólann. 

Meðal helstu niðurstaðna í umræðunum voru þær að nemendurnir töldu að ungt fólk skorti tæki og tól til þess að gera sig gildandi í friðaruppbyggingu í heiminum, að ályktun Sameinuðu þjóðanna um ungt fólk, frið og öryggi, færði þeim einungis orð en henni fylgdu engin verkfæri. Þá skapaðist einnig umræða um það hvaðan ályktunin væri sprottin þar sem hún virtist fremur grundvölluð á ótta en bjartsýni í garð komandi kynslóða. Í umræðum um konur á flótta var m.a. lagt til að fela Sameinuðu þjóðunum að gæta öryggis við landamæri ríkja til þess að koma í veg fyrir að brotið sé á réttindum fólks á flótta, þar með talið réttindum kvenna sem hafa oftar en ekki þurft að yfirgefa heimkynni án þess að hafa eitthvað haft um það að segja. Í umræðu um hlutverk kvenna í friðaruppbyggingu kom fram að konum væri enn haldið frá borðinu og þeirra rödd fengi ekki að njóta sín í friðarumleitunum og friðaruppbyggingu á stríðshrjáðum svæðum. Nemendurnir töldu mikilvægt að skapa tengslanet meðal kvenna í friðaruppbyggingu, grípa þyrfti tímabundið til kynjakvóta til þess að laga hallann en vinna jafnframt að hugarfarsbreytingu til þess að bæta stöðuna til frambúðar.