Opnað fyrir umsóknir!

Blásið verður með formlegum hætti til Snjallræðis við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu næsta föstudag klukkan 12.00. Opnað verður fyrir umsóknir í eina viðskiptahraðalinn hér á landi þar sem megináherslan er á verkefni í þágu samfélagsins. Í fyrra fór hraðallinn fyrst af stað og afurðin voru frábær samfélagsleg verkefni - Bergið Headspace, Samgönguspor, Miðgarður, Farsæl öldrun, Reykjavík er okkar, Heilun jarðar og Samfélagshús - sem eiga það öll sammerkt að bæta samfélagið okkar. Snjallræði var haldið á vegum Höfða friðarseturs, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en að hraðlinum kemur einnig öflugt net annarra samstarfsaðila.

Átta verkefni verða valin til þátttöku í átta vikna hraðli sem fer fram í október og nóvember næstkomandi. Aðstandendur verkefnanna fá vinnuaðstöðu, aðgang að hópi leiðbeinenda og stuðning við að þróa hugmyndina áfram.

MIT designX með í ár

Svafa Grönfeldt og samstarfsfélagar hennar frá MIT designX munu sjá um sprett í upphafi Snjallræðis. Spretturinn verður styrktur af MIT Industrial Liaison Program (ILP), í gegnum samstarf Alvogen og Háskólans í Reykjavík við Snjallræði. Á viku tímabili munu teymin í Snjallræði fá að kynnast nýjustu nálgunum á sviði samfélagslegrar nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi og öðlast tækifæri til þess að sannreyna eigin hugmyndir og kryfja þær til mergjar í krefjandi vinnustofum sem byggðar verða á fjórum grunnstoðum MIT DesignX, Understand – Solve – Envision – Scale.

„Íslensk fyrirtæki og atvinnulíf hafa mikið fram að færa í samfélagsmálum og þess vegna er afar mikilvægt að virkja þann kraft og þekkingu og nýta inn í vettvang eins og Snjallræði.“ Nánari upplýsingar á vef www.snjallraedi.is

Bakhjarlar Snjallræðis eru Deloitte, Össur, Icelandair, Marel og Landsvirkjun.

- www.snjallraedi.is -