Vernd borgara gegn ofbeldi og mismunun

Hvernig geta samfélög og ríkisstjórnir aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna stuðlað að því að allir borgarar njóti verndar gegn ofbeldi og mismunun?

Þessari spurningu mun Victor Madrigal-Borloz, sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn ofbeldi og mismunun byggðri á kynhneigð og kynvitund fólks, reyna að svara í erindi sínu. Hann leggur áherslu á að mikilvægt sé að einstakir leiðtogar sýni frumkvæði og taki forystuhlutverk til að berjast fyrir mannréttindum tiltekinna hópa sem er mismunað í samfélaginu, en þannig er hægt að vinda ofan af ranghugmyndum um viðkomandi hópa, ótta og fordómum sem gjarnan eru forsenda þess að fólk verður fyrir ofbeldi og mismunun. Þá mun hann ræða hvernig mismunandi löggjöf víða um heim stuðlar enn að því að hinsegin fólk nýtur ekki fullra mannréttinda.

Victor Madrigal-Borloz stundar rannsóknir á sviði mannréttinda við lagadeild Harvard háskóla og gegnir hlutverki óháðs sérfræðings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn ofbeldi og mismunun byggðri á kynhneigð fólks og kynvitund en um er að ræða eina sérstaka embættið á vegum Sameinuðu þjóðanna sem lýtur að málefnum hinsegin fólks.

Fundarstjóri: Þórir Guðmundsson, ritstjóri fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar