Vinningsteymi Snjallræðis 2018

Þann 10. október sl. hóf fyrst íslenski hraðallinn fyrir samfélagslega nýsköpun, Snjallræði, göngu sína. Hraðlinum er ætlað að stuðla að fjölbreyttari nýsköpun hér á landi og skapa vettvang fyrir aukið samfélagslegt frumkvöðlastarf.

Alls bárust 40 í Snjallræði þetta árið og þau verkefni sem báru sigur úr býtum eru afar fjölbreytt, virklega metnaðarfull og leita lausna við ólíkum samfélagslegum áskorunum.

Sjö framúrskarandi verkefni á sviði samfélagslegrar frumkvöðlastarfsemi voru valin til þátttöku og hafa þau nú fengið vinnuaðstöðu í Húsi skapandi greina við Hlemm. Á sjö vikna tímabili, í október og nóvember, munu þátttakendurnir njóta stuðnings við að þróa hugmyndina áfram og koma henni í framkvæmd, ásamt þjálfun frá fremstu sérfræðingum Íslands.

Landsvirkjun er stoltur bakhjarl Snjallræðis en að hraðlinum standa HÖFÐI Friðarsetur og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Aðrir samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, Listaháskóli Íslands, Festa, samfélagsábyrgð fyrirtækja, Atvinnuvegaráðuneyti: Iðnaður / viðskipti / ferðaþjónusta / orka, Háskólinn í Reykjavík og Icelandic Startups.

Vinningsteymin

Sigurþóra Bergsdóttir fer fyrir samtökum um móttöku- og meðferðarsetur fyrir ungt fólk í vanda. Markmið samtakanna er, eins og nafnið gefur til kynna, að setja á fót móttöku- og meðferðarúrræði fyrir ungt fólk í vanda. Starfsemin mun grundvallast á þverfaglegri og samþættri meðferð þar sem unnið er með geðrænan vanda, vímuefnavanda og áföll, en einnig endurhæfingu og almenna lífsleikni. Eftirfylgni verður öflug og áframhaldandi meðferð og stuðningur veittur með skóla og/eða atvinnu. Þá verður starfsemin öll hönnuð með ungt fólk og þarfir þeirra í huga, m.a. með tilliti til sköpunar, lista og íþróttaiðkunar.

Eyþór Máni Steinarsson og Þorgrímur Kári Emilsson hrepptu sigur úr bítum í Borgarhakkinu sem fram fór sl. vor í ráðhúsi Reykjavíkur og fá nú tækifæri til þess að þróa hugmyndina sína áfram. Hugmyndin þeirra, Reykjavík er okkar, felur í sér snjallforrit sem virkjar kraft borgarbúa í þágu okkar allra. Því er ætlað að gera fólki kleift að taka eignir og svæði í borginni til persónulegrar umhirðu. Með forritinu verður fólk gert kleift að sjá myndir af eignum borgarinnar í nærumhverfi sínu og taka að sér umhirðu og viðhald á þeim eftir vilja og hentugleik. Í skiptum fyrir umhirðuna myndi borgin umbuna þeim með inneign sem þau geta leyst út, til dæmis í formi hækkaðs frístundastyrks, lækkun á rafmagnsreikningi eða annari þjónustu frá borginni. Verkefnið snýst um að fá borgarbúa til þess að taka virkari þátt í umhirðu og umsjá nærumhverfis síns.

Hugmynd Þórunnar Ólafsdóttur og Kinan Kadoni snýr að því að koma á fót samfélagshúsi, sýnilegs, lifandi staðar sem laðar forvitið fólk að, staðsett miðsvæðis í borginni - öllum opið og aðgengilegt.

Samfélagshúsinu er ætlað að tengja saman íslenskt samfélag og fólk af erlendum uppruna á fjölbreyttan og skapandi hátt. Sérstök áhersla verður lögð á að ná til flóttafólks og fólks í viðkvæmri samfélagsstöðu. Húsinu er í senn ætlað að vera menningarhús, fræðslumiðstöð og griðarstaður fyrir fólk sem vill kynna þekkingu sína og áhugamál fyrir öðrum - staður þar sem ólíkir menningarhópar mætast með það að markmiði að kynnast og tengjast.

Húsið á í senn að vera notalegur staður þar sem fólk getur komið og hitt annað fólk án skuldbindinga og unnið eða lært, fengið aðstoð við að fylla út umsóknir og skipst á tungumálaþekkingu. Í húsið kemur reglulega starfsfólk stofnana eins og verkalýðsfélaga, sveitarfélaga og menntastofnana svo dæmi séu tekin, þar sem markmiðið er að fólk af erlendum uppruna geti sótt sér samfélagsráðgjöf og upplýsingar á einum stað. Það er algengt að fólk sem nýlega hefur sest að á landinu missi af mikilvægum upplýsingum um réttindi sín vegna þess hversu óaðgengilegar þær upplýsingar eru.

Í húsinu verður lögð áhersla á fjölbreytta tungumálakunnáttu og menningarlæsi þeirra sem veita ráðgjöf og þjónustu.

Verkefni Daða Baldurs Ottóssonar, Samgönguspor, snýst um að koma á laggirnar þjónustu sem aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við að innleiða og framfylgja samgöngustefnu. Tilgangurinn með samgöngustefnu er bæði að hafa áhrif á ferðahegðun fólks og viðhorf til vistvænna ferðamáta, og hefur því virkilega mikinn samfélagslegan ávinning í för með sér. Rannsóknir sýna að innleiðing samgöngustefnu hjá fyrirtækjum, stofnunum og skólum sé gríðarlega áhrifamikil leið til þess að breyta ferðavenjum starfsmanna. Á Íslandi vantar þjónustu og tól til að aðstoða fyrirtæki við að halda utan um samgöngusamninga, gögn og greiningu, og eftirfylgni. Að sama skapi skortir starfsmenn þægilegt skráningarkerfi og ríkari hvatningu.

Hugmynd Sigrúnar Thorlacius felst í því að láta valda sveppi hreinsa og endurheimta landsvæði sem hefur spillst af völdum mengunar og/eða fyrirbyggja umhverfisslys þar sem vitað er að hætta sé fyrir hendi.

Í svepparíkinu má finna tegundir sem í sameiningu geta brotið niður öll helstu eiturefni er ógna lífi á jörðinni. Á matseðli þeirra eru kemísk, geislavirk og þrávirk lífræn efni, olíur og jafnvel plast. Sumir soga til sín þungmálma og afeitra með því jarðveginn í kring. Sveppir sundra þrávirkum efnum í meðfærilegri einingar sem aðrar lífverur geta nýtt sér. Þannig hrinda þeir af stað keðjuverkandi niðurbroti á eitruðum efnum sem að öðrum kosti safnast upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þessir ferlar hefjast þó ekki fyrr en réttur sveppur kemur að vandanum.

Verkefnið gengur út á vinna tíma, hraða því að náttúrulegir ferlar fari í gang og hefja ræktun á vel völdum sveppum á menguðum svæðum. Búa þeim skilyrði til lífs og hlúa að þeim meðan þeir ná fótfestu. Tilraunir sem gerðar hafa verið með hreinsunarstarf sveppa sýna fram á mjög skjótan og áhrifaríkan árangur.

BFSUBL, eða Byggingarsamvinnufélag Samtaka um Bíllausan lífsstíl, vilja reisa og reka bíllaust hverfi í Reykjavík. Lagt verður upp úr því að byggja góðar og traustar íbúðir á viðráðanlegu verði en einnig verður boðið upp á leiguhúsnæði. Byggðin verður þétt en lágreist, með umhverfisvænu húsnæði. Þröngar göturnar verða göngugötur en bílum hleypt í gegn í neyðartilvikum. Nokkur bílastæði verða í útjaðri hverfisins.

Hugmyndin er að gera þeim sem vilja lifa bíllausum lífstíl kleift að búa í notalegu umhverfi sem samræmist þörfum þeirra og hugsjónum.

Þær Berglind Indriðadóttir, Rannveig Guðnadóttir og Guðrún J. Hallgrímsdóttir veittu viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd samtaka um Farsæla öldrun. Markmiðið með framtakinu er að koma á fót þekkingarmiðstöð í öldrunarþjónustu sem starfa mun á landsvísu, miðla þekkingu um öldrunarmál til starfsfólks og almennings með fjölbreyttum miðlunarleiðum og veita gagnreynda ráðgjöf til stofnana.

Það er mikil þörf á að stuðla að nýrri menningu í öldrunarþjónustunni, bæta þjónustu og starfsumhverfi með notkun nýjustu þekkingar og aðferða og auka skilvirkni og nýtingu á því takmarkaða fjármagni sem er til ráðstöfunar innan atvinnugreinarinnar með því að gera þekkingu aðgengilegri á landsvísu. Jafnframt er mikilvægt að nýta fjölbreyttar aðferðir við þekkingarmiðlun, s.s. tæknimöguleika og auka vægi þekkingarmiðlunar meðal hópa sem starfa saman í því umhverfi sem starfið fer fram.

Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum til komandi vikna í Húsi skapandi greina við Hlemm!