Verkefnin

Fjöldi verkefna eru framundan á fyrsta starfsári HÖFÐA Friðarseturs en þar má t.d. nefna úttekt og aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu í borginni sem nýtt verður til að stuðla að vitundarvakningu á málefninu. 

Eitt af helstu verkefnum setursins verður að koma á fót sumarnámskeiði fyrir börn af ólíkum uppruna sem haldið verður í fyrsta sinn sumarið 2017. Námskeiðið er unnið í samstarfi við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Rauða krossinn og Háskóla unga fólksins, sem og aðra fagaðila og samtök. Með því að efla færni barna í að greina og leysa úr átökum á friðsamlegan hátt er hægt að vinna markvisst að því langtímamarkmiði að byggja upp friðarmenningu, sem síðar mun skila sér út í samfélagið. Aukinn skilningur á alþjóðamálum og átökum í heiminum eykur meðvitund um mikilvægi friðsamlegra samskipta og hvernig leysa megi úr deilumálum án þess að komi til átaka.