Verkefnin

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands sinnir fjölbreyttum verkefnum. Meðal þeirra má nefna málstofur og opna fyrirlestra um friðarmál, sumarnámskeið í friðarfræðslu fyrir börn af ólíkum uppruna, alþjóðlega ráðstefnu 10/10 ár hvert þar sem áherslan er á framlag ungs fólks til friðar og Snjallræði, hraðal fyrir samfélagslega nýsköpun.

Höfði friðarsetur stóð í fyrsta skipti fyrir sumarnámskeiði fyrir börn af ólíkum uppruna sumarið 2017, í samstarfi við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Rauða krossinn og Háskóla unga fólksins, sem og aðra fagaðila og samtök.

Með því að efla færni barna í að greina og leysa úr átökum á friðsamlegan hátt er hægt að vinna markvisst að því langtímamarkmiði að byggja upp friðarmenningu, sem síðar mun skila sér út í samfélagið. Aukinn skilningur á alþjóðamálum og átökum í heiminum eykur meðvitund um mikilvægi friðsamlegra samskipta og hvernig leysa megi úr deilumálum án þess að komi til átaka.

Höfði friðarsetur þróaði nýtt námsefni fyrir sumarnámskeiðið 2017 upp úr bókinni Flugan sem stöðvaði stríðið í samstarfi við höfudinn, Bryndísi Björgvinsdóttur, og nemendur við Listaháskóla Íslands.

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar Nordplus. Um er að ræða Nordplus Horizontal styrk sem ætlaður er til samstarfsverkefna á milli skólastofnanna og opinberra aðila, einkaaðila eða félagasamtaka, á sviði nýsköpunar í menntamálum.

Verkefnið er samstarfsverkefni á milli háskóla og sveitarfélaga og snýr að þróun netnámskeiðs í menningarnæmni. Markmiðið með námskeiðinu er að mennta starfsfólk sveitarfélaga og háskóla til að það geti betur sinnt þjónustu við innflytjendur og útlendinga.

Háskóli Íslands leiðir verkefnið í samstarfi við Reykjavíkurborg. Fjórir aðrir háskólar taka þátt í verkefninu, en það eru Háskólinn í Gautaborg, Háskólinn í Osló og Háskólinn í Helsinki, RISEBA háskóli í Riga en auk þess taka þátt í verkefninu sveitarfélög í Noregi og Finnlandi.

Pia Hansson forstöðumaður Höfða Friðarseturs, Auður Birna Stefánsdóttir verkefnisstjóri Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Hanna Ragnarsdóttir prófessor á Menntavísindasviði þróuðu verkefnið og vinna að því fyrir hönd Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar í samvinnu við fræðimenn í háskólunum þremur og sérfræðingum frá sveitarfélögunum.

Þann 10/10 2018 mun Höfði friðarsetur beina sjónum sínum að ungu fólki á farandsfæti og áhrifum landamæra á ungt fólk, undir yfirskriftinni Youth on the Move. Ráðstefnan verður áfram undir formerkjunum The Imagine Forum: Looking Over the Horizon, með áherslu á framlag ungs fólks til friðar.

Þann 10. október 2017 stóð Höfði friðarsetur fyrir fyrstu alþjóðlegu ráðstefnunni undir yfirskriftinni The Imagine Forum: Looking Over the Horizon í Veröld – húsi Vigdísar í Háskóla Íslands þar sem áherslan var á framlag ungs fólks til friðar. Áhersla var lögð á þau jákvæðu áhrif sem ungt fólk getur haft á samfélag sitt en með rástefnunni leiddi Höfði friðarsetur saman ólíkar kynslóðir til þess að ræða þær áskoranir sem blasa við í heiminum í dag og finna skapandi lausnir og leiðir til þess að takast á við þær.

Aðalræðumenn ráðstefnunnar voru Tawakkol Karman, Unni Krishnan Karunakara og Faten Mahdi Al-Hussaini.

Hér má sjá upptöku frá ráðstefnunni 2017.