Jean Monnet Networks

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr sjóði Jean Monnet Networks, sem heyrir undir Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins, fyrir verkefnið Post-Truth Politics, Nationalism and the (De)Legitimation of European Integration. Styrkurinn er til þriggja ára og hljóðar upp 300.000 evrur. Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka og greina áhrif og umfang „falsfrétta“, upplýsingafölsunar (e. disinformation) og stjórnmála „eftirsannleikans“ á samfélög okkar og lögmæti Evrópusamrunans. Sérstök áhersla verður lögð á miðlun upplýsinga og þær breytingar sem hafa átt sér stað á fjölmiðlaumhverfinu þar sem netmiðlar og samfélagsmiðlar eru orðin afar mikilvæg uppspretta og vettvangur stjórnmálaupplýsinga og samskipta.

Háskóli Íslands leiðir verkefnið sem er samstarfsverkefni fimm annarra háskóla: Háskólans í Birmingham, Óslóarháskóla, Háskólans í Helsinki, Viktoríuháskóla í Kanada og Kaupmannahafnarháskóla.

Maximilian Conrad, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands leiðir verkefnið fyrir hönd Háskóla Íslands í samvinnu við Piu Hansson, forstöðumann Alþjóðamálastofnunar og Auði Örlygsdóttur, verkefnisstjóra Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Á þriggja ára tímabili mun samstarfsnetið halda vinnustofur, rannsóknahringborð fyrir unga fræðimenn, birta fræðigreinar, ráðleggingar við stefnumótun (e. policy briefs) en ein af aðalafurðum verkefnisins verður útgáfa á ritrýndri fræðibók.