NOS-HS - Norrænt samstarfsverkefni

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands leiðir verkefnið The Power of Narratives: Democracy and Media in Political Turmoil en verkefnið er styrkt úr sjóði The Joint Committee for Nordic Research Councils in the Humanities and Social Sciences (NOS-HS). Í verkefninu felst undirbúningur rannsókna á sviði lýðræðis og fjölmiðlunar í breyttu pólitísku umhverfi þar sem aðaláhersla er lögð á pólitíska orðræðu, lýðskrum og birtingarmyndir hatursorðræðu á samfélagsmiðlum.

Fyrsta vinnustofan í verkefninu fór fram í Norrköping í apríl 2018 og hófst á opnu málþingi þar sem sjónum verður beint að pólitískri orðræðu norrænu stjórnmálaflokkanna og hvernig hún endurspeglast í hatursorðræðu og andúð á innflytjendum.

Önnur málstofan í verkefninu fer fram í Helsinki í Finnlandi í nóvember 2018 en þar verða samsæriskenningar, stjórnmál eftirsannleikans og aukin andúð í garð yfirvalda og opinberra stofnana í brennidepli. Verkefnið endar svo með málstofu hér á landi í mars 2019 þar sem sjónum verður beint að því hvernig breyta megi orðræðunni og áhersla lögð á þátttökulýðræði og aukna aðkomu almennings að mikilvægum ákvörðunum.

Háskóli Íslands leiðir verkefnið en samstarfsaðilar eru Háskólinn í Linköping í Svíþjóð og Háskólinn í Helsinki í Finnlandi. Pia Hansson, forstöðumaður Höfða Friðarseturs, Auður Örlygsdóttir, verkefnisstjóri setursins, Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og forseti Hugvísindasviðs, Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki og Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, vinna að verkefninu fyrir hönd Höfða friðarseturs og Háskóla Íslands, í samvinnu við fræðimenn við samstarfsháskólana. Samstarfinu er ætlað að efla rannsóknir á sviði félags- og hugvísinda og ein helsta afurð verkefnisins verður að sækja í erlenda samkeppnissjóði fyrir frekari rannsóknum á sviði lýðræðis, fjölmiðlunar og pólitískrar orðræðu á Norðurlöndunum.