Stuðlum að friði

Við teljum að með því að byggja á þekkingu einstaklinga, fræðasamfélagsins, alþjóðastofnana og allra þeirra sem berjast fyrir friði getum við öðlast betri skilning á því hvað friður er og hvernig við sem einstaklingar getum stuðlað að friði. Með því að byrja smátt getum við lagt okkar af mörkum til friðar á alþjóðavettvangi. 

„Friður byggir á sátt og sátt byggir á sanngirni.“

– Guðrún Pétursdóttir

Friður og réttlæti

„Stríð er óumflýjanlegt.“ „Friður er draumsýn.“ „Ríki verða að undirbúa sig fyrir stríð, þau verða að geta varist ef á þau er ráðist.“ Þetta eru sjónarmið sem heyrast oft þegar rætt er um stríð og frið. En hvað er friður? Er það friður þegar ríki vígbúast og verja stórum hluta þjóðarframleiðslu í hergögn? Ríkti friður á milli stórveldanna í Kalda stríðinu? Með því að hugsa um jákvæðan og neikvæðan frið getum við aukið við skilning okkar á friði. Neikvæður friður er einfaldlega það að ríki séu ekki í stríði. Í því ástandi er vissulega líklegt að ríki telji sig þurfa að vígbúast og efla varnir sínar. Jákvæður friður er það ástand sem skapast þegar traust ríkir á milli aðila, þegar félagsleg kerfi þjóna þörfum allra íbúa, þegar átökum er lokið með uppbyggilegum hætti. Til að skapa þetta ástand þarf að stuðla að réttlæti, jafnt innan samfélaga og á milli þeirra. Friðarsamningar mega ekki byggja á valdi, heldur á sanngjarnri útkomu. Ef einn aðili þarf að fórna meiru en aðrir til að tryggja friðinn, þá verður niðurstaðan ekki langvarandi.

- Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands 

Fleiri hlugleiðingar um frið...

„Reykjavík er friðarborg og vill vera það.“

– Dagur B. Eggertsson