Pistlar

Staður sátta

Það er við hæfi að friðarsetri Íslendinga sé fundinn staður í Höfða í Reykjavík. Táknræn merking staðarins er öllum ljós. Í þessu litla, en reisulega timburhúsi við sjávarbakkann skapaðist árið 1986 nánd milli leiðtoga stórveldanna. Sú nánd markaði upphafið að sáttum sem losuðu um spennitreyju kalda stríðsins.

Friðarfræðin kenna okkur að sættir deiluaðila, líkt og áttu sér stað í Höfða fyrir þrjátíu árum, eru ávallt bundnar við ákveðinn stað. Stað þar sem sem fortíðin og framtíðin mætast, stað þar sem deiluaðilar ná saman um viðurkenningu á fortíðinni og sýn á sameiginlega framtíð.

Fyrir stefnumarkandi fund Reagans og Gorbachevs var Höfði þessi staður. Sú saga er okkur vel kunn og er til þess fallin að veita þeim innblástur sem sækja Höfða heim.

Minna þekkt saga, en saga sem ætti að vera starfi friðarsetrisins jafn mikilvæg, er að þar náðu stórveldin tvö sátt um að vinna sameiginlega að lausn þeirra svæðisbundnu átaka sem kalda stríðið hafði nært. Í beinu framhaldi af þessari sátt í Höfða voru Sameinuðu þjóðirnar stórelfdar og það varð hugmyndafræðileg umbreyting á hlutverki þeirra, frá hlutlausri friðargæslu til virkrar friðaruppbyggingar.

Nú bíður setursins hið spennandi verk að marka sér sitt sérstaka hlutverk í sífellt þróaðri og fjölsetnari heimi friðaruppbyggingar. Það upplegg setursins, að ætla að læra af öflugu og árangursríku starfi systurstofnana á hinum Norðurlöndunum, er sérstaklega vel til þess fallið að tryggja að næstu skref verði vönduð.

Nægt er efnið í innblásturinn fyrir þá vinnu. Hér er friðsælt, engan rekum við herinn, jöfnuður er meiri hér en víðast annars staðar, og barátta íslenskra kvenna hefur leyft okkur að njóta ávaxta aukins kynjajafnréttis. Ennfremur erum við vel í sveit sett þegar kemur að allri umgjörð til athafna. Ísland, sem herlaust smáríki, getur ekki ógnað öðrum ríkjum og á greiðan aðgang að sáttaumleitunum hvers konar eins og dæmin sýna.

Þá eru íslensk stjórnvöld, ásamt norskum og svissneskum stjórnvöldum, ekki sjálfkrafa áskrifendur að evrópskum listum sem girða fyrir samskipti við fólk í meintum tengslum við vopnaða hópa. Við sem höfum unnið að friðaruppbyggingu þekkjum hve miklum vandkvæðum það getur verið bundið og hve mikla orku það tekur að bjóða heim frá átakasvæðum þeim sem við kjósum, og tryggja þeim áritanir. Við eigum að geta tekið á móti þeim sem sækjast eftir sáttum, og stuttar boðleiðir og fim stjórnsýsla á Íslandi ættu að geta stuðlað að því að slíkar ákvaraðnir séu teknar skjótt og örugglega.

HÖFÐI Friðarsetur fer vel af stað, og hefur alla burði til þess að verða vettvangur frjórrar hugsunar og staður sátta.

- Ragnar Hjálmarsson, Hertie School of Governance

Þegar hundarnir gelta ekki

Á hverjum einasta degi heyrum við um styrjaldir og afleiðingar þeirra. Í erlendu fréttunum heyrum við af mannfalli og fólki á flótta, sem leitar til dæmis á náðir friðsælla Evrópuríkja, við mismiklar vinsældir.

Í pólitísku fréttunum lesum við yfirlýsingar stjórnmálamanna, sem eru uggandi yfir ástandinu og krefjast þess að byssurnar þagni.

Á viðskiptasíðum blaðanna lesum við svo um góðar afkomutölur hergagnaframleiðenda og atvinnuskapandi vopnasölu til stríðandi fylkinga um víða veröld.

Hernaðarútgjöld í heiminum nema, að talið er, 1.747 milljörðum Bandaríkjadala á ári.

Útgjöld friðargæslu Sameinuðu þjóðanna nema á ári tæplega 8 milljörðum dala, sem er innan við hálft prósent samanlagðra hernaðarútgjalda.

Fólkið sem flýr undan geltandi byssukjöftunum, leitar á náðir flóttamannahjálpar samtakanna, en starf hennar kostar svo 5.3 milljarða dala á ári á heimsvísu eða álíka og útgjöld lögreglunnar í New York.

Sú vaska lögreglusveit gætir meðal annars öryggis höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna, sem vinna að framgangi heimsfriðar í höfuðstöðvum sínum þar í borg, en eru hálfdrættingar lögreglunnar hvað útgjöld varðar.

Svo mikið er víst að fyrirsagnirnar “Ekki var skotið af byssu,” eða “Allir mettir í Malaví” munu ekki sjást í bráð, en því meiri ástæða er til að brjóta til mergjar orsakir ófriðar og hvernig koma á í veg fyrir mannskæð átök.

Að mínu mati verður það vart betur gert en með þvi að vega að rótum vandans, meðal annars með því að berjast gegn loftslagsbreytingum, stuðla hvarvetna að sjálfbærri þróun, minnka ójöfnuð og efla jafnrétti kynjanna, eins og stefnt er að í svokölluðum Heimsmarkmiðum eða Sjálfbæru þróunarmarkmiðunum.

Eitt er að stilla til friðar og annað að koma í veg fyrir að stríð brjótist út með öllum þeim hörmungum sem því fylgja með langtíma starfi eins og þeim sem felast í þessum markmiðum. Fréttir um slíkt verða þó seint á forsíðum blaðanna – hver tekur eftir því þegar hundarnir gelta ekki?

- Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi svæðisskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu (UNRIC)

Friðarborgin

Alveg frá því að ég man eftir mér hef ég haft andstyggð á öllu stríði og hernaðarbrölti. Mér verður líkamlega flökurt þegar ég les fréttir af stríðsátökum og ímynda mér þjáningar fólksins sem eru fórnarlömbin. Yfirleitt eru þessi stríð háð á vafasömum forsendum, einhverju er haldið fram af stjórnmálamönnum eða herforingjum en yfirleitt er hinn raunverulegi tilgangur annar. Stríð eru gjarnan háð undir formerkjum frelsis og sjálfstæðis – það á að frelsa fólk undan oki einhvers. En það gerist sjaldnast. Fólkið sem átti að frelsa er hneppt í nýja ánauð ófriðar. Ofbeldi og stríð eru bæði dýr og léleg aðferð til að leysa ágreining. Þeir sem græða mest á stríðsrekstri eru ekki fólkið sem átti að frelsa heldur þeir sem selja vopnin. Það eru þeir sem hagnast mest á stríðum. Allir aðrir tapa.

Ísland byggir á langri friðarhefð. Hér hefur okkur þótt skynsamlegra að leysa ágreining með umræðum eða öðrum friðsamlegum aðferðum. Það eru ekki allar þjóðir sem eru þeirrar gæfu aðnjótandi. Jafnvel í nágrannalöndum okkar hafa geysað stríð og stundum í langan tíma. Ég tel mjög mikilvægt að friðelskandi þjóðir leggi sitt af mörkum til að stuðla að friði í heiminum. Í því sambandi gegna borgir lykilhlutverki. Borgir eru leiðandi í því að reyna að greiða úr þeim vandamálum sem helst ógna heilsu okkar og öryggi. Borgir standa þjóðríkjum langtum framar þegar kemur að mannréttindamálum og loftslagsmálum til dæmis. Eðli borga er annað en þjóðríkja. Borgir fara til dæmis aldrei í stríð við aðrar borgir.

Þegar ég var borgarstjóri reyndi ég eftir fremsta megni að beita mér í friðar- og mannréttindamálum. Ég komst að því að það getur verið erfitt að skipuleggja frið. Manni fallast stundum hendur. Að auki er maður oft sakaður um barnaskap en friðarbarátta krefst þess að maður sé í ákveðinni andstöðu við hefðbundin og ríkjandi gildi.

Hvert skref frá ófriði er skref í átt til friðar. Ég óska HÖFÐA Friðarsetri Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands innilega til hamingju. Megi þessi stofnun efla frið og friðarumræðu bæði hér heima og erlendis.

- Jón Gnarr, rithöfundur og fyrrum borgarstjóri í Reykjavík

Frjáls smáríki

Það væri óskandi að það væru fleiri smáríki í heiminum. Smáríki sækjast ekki eftir heimsyfirráðum. Þau eru yfirleitt friðsamleg og talsmenn friðsamlegra samskipta milli ríkja. Á sama tíma eiga smáríki erfiðara en stór ríki með að verjast utanaðkomandi árásum. Smáríki eiga því allt sitt undir friðsamlegu alþjóðasamfélagi. Það er því mikilvægt fyrir smáríki að vera í forystu í friðarmálum. Með stofnun HÖFÐA Friðarseturs erum við að leitast við að finna leiðir til að styrkja stöðu smáríkja í heiminum og reyna að tryggja að ríki leysi úr deilumálum sínum á friðsamlegan hátt. Friðsamlegur heimur er heimur þar sem smáríki eru frjáls og blómstra.

- Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og rannsóknastjóri Rannsóknaseturs um smáríki við Háskóla Íslands

Friður byggir á sátt

Aldrei hefur maðurinn gengið eins freklega á auðlindir jarðar og á okkar tímum. Það er eins og menn haldi að þær séu óendanlegar. En þær eru það ekki. Jörðin er lítil og lífið er ein samhangandi heild, í jafnvægi sem má ekki raska.

Á síðustu tímum höfum við komið á kerfum sem gera pínulitlum hluta mannkyns kleift að taka til sín – eigna sér – sífellt stærri hluta auðlinda jarðar - þar með talið lífsnauðsynlegar auðlindir, eins og vatns.

Ef við tökum okkur ekki alvarlega á, göngum betur um, og leiðréttum þetta misræmi, þá stuðlum við að hrikalegum ófriði næstu kynslóða. Því friður byggir á sátt og sátt byggir á sanngirni.

- Guðrún Pétursdóttir, Forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða

Öll erum við manneskjur

Vilji fólk ná fram friði, verður að leggja fordóma gegn gagnaðilanu til hliðar. Það er viðtekin skoðun á Vesturlöndum að talibanar í Afganistan séu og muni ávallt vera fjandsamlegir réttindum kvenna. Að það þýði ekki að nefna réttindi kvenna, hvað þá að krefjast þess að konur sitji við samningaborðið í friðarumleitunum, því þeir muni bara ganga á dyr.

Fáir eru svo gegnheilir í skoðunum sínum eða gjörðum að þeir geti ekki aðlagað sig breyttum aðstæðum.

Afganska þingkonan fyrrverandi Farkhunda Naderi hefur setið við borðið þegar reynt var að koma af stað friðarviðræðum. „Eftir því sem fundunum fjölgaði, vöndust talibanarnir því að ég væri til staðar og stæði á mínu,“ segir hún.

Ef ég ætti að tilnefna einhvern til friðarverðlauna, væru það samt afganskar ljósmæður. Mitt í orrahríðinni þurfa þær að koma konum í barnsnauð til hjálpar. Mörgum þeirra hefur tekist að semja beint við talibanaleiðtoga um tímabundið og staðbundið vopnahlé eða vernd til að bjarga lífi kvenna og barna.

Öll erum við manneskjur. Talibanar eiga líka mæður, eiginkonur og dætur. Gleymum því ekki að andstæðingar á vígvellinum geta búið yfir skynsemi, mannúð og sáttavilja. Setjum fordómana til hliðar og reynum að höfða til þess góða í fólki.

- Herdís Sigurgrímsdóttir, blaðamaður, ráðgjafi og stjórnmálafræðingur

Við og hinir

Kurteisi og virðing í mannlegum samskiptum skiptir miklu máli til þess að skapa jákvæða umræðuhefð. Friðsamleg samfélög byggjast á virðingu fyrir náunganum og umburðarlyndi gagnvart þeim sem eru okkur ólíkir. Það er ekkert að því að fólk hafi ólíkar skoðanir, það getur verið mjög hollt að skiptast á skoðunum við þá sem að eru okkur ósammála. Það virðist þó stundum gleymast í hita leiksins að hjóla í boltann en ekki manninn.

Hatursáróður er mjög hættulegur og getur aldrei stuðlað að friði. Hatursáróður skapar sundrungu og átök og fórnarlömbin eru nánast alltaf minnihlutahópar. Afleiðingarnar eru margvíslegar og geta verið allt frá kerfisbundinni mismunun út í ofbeldi og stríð. Mikið af þeim átökum sem eiga sér stað í heiminum eiga rætur sínar að rekja til mismununar og hatursumræðu sem skiptir hópum í „við“ á móti „þeim“. Helför nasista gegn gyðingum á einmitt rætur sínar að rekja til fordóma og hatursáróðurs. Slátrun Hútúa á Tútsum í Rúanda á 10. áratug síðustu aldar má eining rekja til hatursáróðurs. Auðvitað eru aðrir undirliggjandi þættir sem hafa sitt að segja en kerfisbundin hatursorðræða, og þá sérstaklega í fjölmiðlum, ýtir undir aðgerðarleysi og samþykki samfélagsins á ofbeldi og mismunun gagnvart þeim hópi sem umræðan beinist að.

Með þessari hugleiðingu vil ég hvetja samlanda mína til þess að hafna hatursorðræðu og fordómum í íslensku samfélagi. Það er ekkert óeðlilegt við það að hræðast hið ókunnuga en þá er svo mikilvægt að takast á við hræðsluna með því að fræðast um það sem að veldur þessum ótta. Það er gríðarlega mikilvægt að leita sér upplýsinga frá ólíkum sjónarhornum, stíga út fyrir þægindarammann og setja sig í spor annarra. Hættum að einblína á það neikvæða, við eigum mun meira sameiginlegt með hvort öðru heldur en hitt og svo er það líka svo nærandi fyrir sálina að einblína frekar á það jákvæða í lífinu.

- Ást og friður
Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Börn á flótta

Af þeim liðlega 21 milljón einstaklinga sem hafa stöðu flóttamanns í heiminum er um helmingurinn börn. Í flestum tilfellum er um að ræða börn sem hafa misst heimili sín og alist upp að hluta til eða öllu leyti við aðstæður þar sem grunnþarfir þeirra um öruggt umhverfi og menntun eru ekki uppfylltar. Það sem mörg þessara barna hafa orðið vitni að eða lent í getur haft varanleg áhrif. Stríð og ofbeldi, misnotkun og vanræksla eru hluti af daglegu lífi barna á flótta.

Þegar börn komast í örugga höfn eftir slíkar hörmungar þurfa þau ekki eingöngu að aðlagast nýju samfélagi, læra tungumál og kynnast hefðum nýs heimalands, en í þessum þáttum gegnir skólakerfið lykilhlutverki. Börn þurfa einnig að takast á við þær upplifanir sem þau hafa orðið fyrir, ofbeldi sem þau hafa orðið vitni að og brenglað gildismat stríðshrjáðra svæða sem oft er það eina sem þau þekkja.

Á barnsaldri er enn hægt að hafa mikil áhrif á einstaklinginn og koma í veg fyrir varanlegan skaða sem barnæska við hörmungaraðstæður veldur. Samfélagið sem tekur við börnunum, bærinn eða borgin þar sem þau fá skjól gegnir lykilhlutverki í að sýna þessum börnum virði friðar umfram stríð, virði samvinnu umfram sundrung. Börn sem alist hafa upp við stríðsæsingar og hatur þurfa að sjá og upplifa það að ná megi árangri og sínu fram með öðrum leiðum.

Með því að leggja áherslu á frið, gagnkvæma virðingu og samfélag er grunnur lagður að því að börn sem upplifað hafa stríð og aðrar hörmungar skapi sér heimsmynd þar sem leysa má deilur með öðrum hætti en ofbeldi. Þannig geta þessi börn náð meiri árangri sjálf í því landi sem þau dvelja og eins er mögulegt að í framtíðinni geti þau komið að uppbyggingu og endurreisn heimalanda sinna.

Samfélagið sem tekur við börnum sem hafa verið á flótta getur gert þeim kleift að takast á við þær hörmungar sem þau hafa upplifað og endurskapa heimsmynd sína. Góðar móttökur og uppbygging fólks sem kemur hingað til lands í leit að vernd geta þannig skipt sköpum fyrir flóttabörn og fjölskyldur þeirra, heimalönd þeirra og ekki síst íslenskt samfélag.

- Erna Kristín Blöndal, framkvæmdarstjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga og doktorsnemi í lögfræði við Háskóla Íslands

Friður sem óbreytt ástand

Stofnandi Rauða krossins var fyrsti handhafi Friðarverðlauna Nóbels. Síðar hefur hreyfingin fengið sömu verðlaun í þrígang. Ávallt fyrir starf í þágu friðar á tímum stríðs og átaka. Friðarverðlaun Nóbels eru mikill heiður. En mikið væri fallegt ef friðarverðlauna þyrfti ekki að njóta við.

Mestu framfaratímabil í sögu mannkyns eiga það sameiginlegt að hafa orðið á stað og stund þar sem friður ríkti. Friður er þannig hornsteinn velmegunar og lífsgæða. Við deilum öll þessari jörð og það ætti að vera okkur öllum keppikefli, nú og um ókomna tíð, að leitast eftir friði. Friður á ekki aðeins að ríkja vegna ótta við átök, friður á að ríkja því við kjósum hann sem óbreytt ástand. Ég er kannski draumóramanneskja, en vitið þið, ég er ekki sú eina. ( Lennon)

- Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi

Friður er réttlæti

Friður. Hvað merkir friður? Þar sem ég er stödd í Jerúsalem verður mér hugsað til þess hversu hugtakið friður er merkingarlaust í Palestínu og Ísrael eftir fjölda „friðarviðræðna“ og „friðarsamninga“ sem hafa ekki leitt til friðar. Friður er réttlæti.

Oslóarsamningarnir 1993 bundu enda á fyrstu uppreisn Palestínumanna gegn hernáminu. Yasser Arafat og Shimon Peres ásamt Yitzhak Rabin fengu friðarverðlaun Nóbels fyrir viðleitni sína til að stuðla að friði í Mið-Austurlöndum, slíðra sverðin og stuðla að sátt. Samingurinn átti að skapa forsendur friðar. Ríki Palestínu án hertekinna svæða og víggirtra ólöglegra landtökubyggða sem ísraelsk stjórnvöld reisa og gyðingar búa í með fjárhagslegum stuðningi stjórnvalda. Nú er svo komið að rúmlega 520 þúsund manns búa í landtökubyggðum á Vesturbakkanum, þ.m.t. 200 þúsund í austurhluta Jerúsalem, samanborið við 262 500 árið sem samningarinar voru undirritaðir[1]. Þegar Shimon Peres lést 28. september sl. þá var það þetta sem stóð í Palestínumönnum og einnig mörgum Ísraelsmönnum: Af hverju héldu stjórnvöld Ísraels áfram að reisa landtökubyggðir í trássi við alþjóðalög eftir undirritun samninganna? Af hverju?

Hernámið versnar og í stað friðar kom önnur uppreisn Palestínumanna gegn hernáminu til sögunnar árið 2000. Árið 2004 hefst gerð aðskilnaðarmúrsins. Land er tekið af Palestínumönnum undir múrinn og fleiri vegatálma sem eru reistir um Vesturbakkana – oðnir yfir 100 talsins. Samningar gerðir sem bundu enda á hina vopnuðu uppreisn árið 2005. Almennar kosningar haldnar í fyrsta sinn í Palestínu 2006. Hamas fær meirihluta atkvæða. Ástæðurnar? Margir sem kusu Hamas áttu og eiga ekki samleið með þeim hugmyndafræðilega. Hamas varð hins vegar táknmynd friðarsamlegrar uppreisnar almennings gegn eigin stjórnmálaflokkum, sem taldir voru veikir, spilltir og hliðhollir hernámsríkinu. Kosning Hamas endurspeglaði tilfinningar sem lúta að reiði, vonbrigði, sjálfsvirðingu og stolti. Það er eflaust erfitt fyrir marga að skilja það nema þeir hafi dvaldið hérlendis eða með samlíkingu: Með kosningu Hamas voru Palestínumenn að lýsa óánægju sinni svipað því þegar Íslendingar kusu Besta flokkinn til valda. Því miður er Hamas ekki Besti flokkurinn og íbúum Gaza hefur verið refsað grimmilega sl. 9 ár af Ísraelsstjórn með stuðningi alþjóðasamfélagsins fyrir að kjósa „Versta flokkinn“.

Já hvað er friður? Friður er virðing. Virðing fyrir mannréttindum, kvenréttindum, mannlegri reisn. Friður er líka að setja sig í annarra spor og geta sýnt skilning t.d. á því af hverju Palestínumenn kusu Hamas. Friður er skilningur á tilfinningum og sálarlífi þjóðar. Friður er sanngirni en ekki dómharka og refsigleði.

Eftir að hafa verið hér í tæplega 3 ár skil ég mun meira en áður. Minn skilningur er ekki bara byggður á einhvers konar „hörðum“ staðreyndum. Skilningur minn er líka byggður á „tilfinningalegum staðreyndum“ sem Svetlana Aleksijevitj, viðtakandi bókmenntaverðlauna Nóbels árið 2015, talar um þegar hún fjallar um líf og örlög einstaklinga frá Tjernóbýl til Kabúl: Hún segir sögu tilfinninga. Sögu sálarinnar.

- Friðarkveðja frá Jerúsalem, Magnea Marinósdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur

Réttindi tryggja friðinn

Þó mannréttindi hafi verið fest í alþjóðasamninga - og víðast hvar einnig í landslög - er enn deilt um eðli og inntak þeirra, hver réttindin séu og hvers eðlis, hvort þau séu algild og öll jafn mikilvæg, hversu langt skuli ganga í að tryggja þau og hvernig það skuli gert. Réttindin eru einnig ólík; sum eru ætluð einstaklingum og önnur hópum manna. Sumum er hægt að fylgja eftir fyrir dómstólum og öðrum ekki. Sumum er ætlað að framfylgja þegar í stað, öðrum í áföngum eftir efnahagsástandi og þróun.


Nokkur atriði hafa þjóðir heims þó orðið nokkurn veginn ásáttar um:

  • Í fyrsta lagi- Mannréttindi heyra manneskjunni til einfaldlega vegna þess að hún er mannleg. Þess vegna eru þau stundum nefnd „hin ásköpuðu réttindi“.
  • Í öðru lagi - Mannréttindi þarf ekki að kaupa, vinna sér inn eða erfa – þau eru „órjúfanleg“.
  • Í þriðja lagi fylgir réttindunum ábyrgð- Alþjóðlegar mannréttindareglur kveða á um hvað stjórnvöld eiga að gera fyrir borgarana og einnig hvað þau mega ekki aðhafast. Sérhver manneskja á mannréttindi og sérhverjum manni beri að axla þá ábyrgð að virða mannréttindi annarra. Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir: „Hver maður hefur skyldur við samfélagið, enda getur það eitt tryggt fullan og frjálsan persónuþroska einstaklingsins“.

Mannréttindi eru óháð öllu öðru en því að við erum menn. Við eigum öll rétt á að lifa, allir mega tjá skoðanir sínar og ekki má banna fólki að vinna eða læra það sem það vill og getur. Enginn á að búa við hungur eða húsnæðisleysi. Litarháttur, kynferði, þjóðerni, kynhneigð, kyngervi, fötlun, trú eða lífsskoðun fólks skiptir ekki máli. Ef við lærum að virða mannréttindi hvors annars svo allir njóti jafnréttis og geti nýtt sína hæfileika þá hlýtur það að leiða til friðar í heiminum og þess að allir geti búið saman í sátt og samlyndi.

- Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands